Þriðji fundur Evrópuþingsins og Vestnorræna ráðsins

Vestnorræna ráðið skorar á ESB að endurskoða bann sitt við innflutningi selafurða til sambandsins og telur að sambandið ætti í auknum mæli að taka þátt í björgunarsamstarfi á Norðuratlantshafi.  Þetta kom fram á þriðja sameiginlega fundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og þingnefndar Evrópuþingsins sem haldinn var nýlega í Nuuk á Grænlandi.

Nefndirnar funda árlega til að ræða sameiginleg hagsmunamál.  Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins skipa Ólína Þorvarðardóttir formaður, og varaformennirnir Kári P. Højgaard þingmaður frá Færeyjum og Josef Motzfeldt forseti Grænlandsþings.  Evrópuþingnefndina skipuðu Pat the Cope Gallagher formaður (Írlandi), Petru Luhan (Rúmeníu), Zuzanna Brzobohata (Tékklandi), Alyn Smith (Englandi) og Sabine Wils (Þýskalandi).

Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fagnaði nýjum samningi ríkisstjórna Norðuskautsráðsins um björgunarmál en tók fram að jafnframt væri mikilvægt að huga að því að þeir sem sinna björgunarmálum á svæðinu hafi til þess fullnægjandi tækjabúnað og mannafla svo hægt verði að tryggja öflugan björgunarviðbúnað á svæðinu. Forsætisnefndin lagði jafnframt áherslu á að ESB íhugaði aukna þátttöku í björgunarsamstarfi á Norðuratlantshafi. 

Evrópuþingnefndin hafði af því áhyggjur í ljósi sparnaðar sem alls staðar á sér stað hjá hinu opinbera um þessar mundir að erfitt geti reynst að tryggja nauðsynlega fjármögnun til að tryggja að allir þættir samningsins komi til framkvæmda.  Nefndin sagðist mundu leggja á þetta áherslu í eftrifylgni sinni.

Vestnorræna ráðið gagnrýndi ESB fyrir að banna innflutning selafurða til sambandsins.  Forsætisnefndin benti á að bannið hefði nú þegar haft alvarlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir fjölskyldur veiðimanna og smærri byggðir veiðimanna á Grænlandir.  Forsætisnefndin lagði á það áherslu í þessu sambandi að selveiðar í Grænlandi væru sjálfbærar.  Evrópuþingnefndin upplýsti að banninu væru fyrst og fremst ætlað að vinna gegn ákveðnum veiðiaðferðum í Kanada.  Tilgangurinn með undanþágu sem Inúítum væri tryggð í reglunum hefði verið að þeir gætu komið skinnum sínum í verð í sambandinu.  Það hefði því ekki verið ætlunin að stuðla að söluhruni á grænlenskum selskinnum.  Evrópuþingnefndin lýsti yfir vilja til þess að taka málið upp á vettvangi Evrópuþingsins.  Nefndin mundi vinna að því að efnt yrði til umræðna um málið hjá sjávarútvegsnefnd þingsins þar sem kallað yrði eftir umsögnum og áliti þar til bærra aðila.

Auk þess voru sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB og vinnsla við endurnýjun hennar og afleiðingar loftlagsbreytinga meðal umræðuefna fundarins.

Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins og Evrópuþingnefndin héldu auk þess fundi með Kuupik Kleist forsætisráðherra Grænlands, Ove Karl Berthelsen atvinnumálaráðherra, Ane Hansen sjávarútvegsráðherra o.fl.

Á myndinni eru frá hægri: Michal Malovec fra Evrópuþinginu, Alyn Smith Evrópuþingmaður, Zuzanna Brzobohata Evrópuþingmaður, Sabine Wils Evrópuþingmaður, Ólína Þorvarðardóttir formaður VNR, Pat the Cope Gallagher formaður Evrópuþingnefndarinnar, Josef Motzfeldt forseti Grænlandsþings, Kári P. Højgaard varaform VNR, Þórður Þórarinsson frkvstj. VNR og Elly Hauge Pedersen frá Grænlandsþingi

Frekari upplýsingar veitir Þórður Þórarinsson framkvæmdastjóri, vestnordisk@althingi.is .