Lars-Pele Berthelsen hlaut rétt í þessu Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins 2012 fyrir bókina Sagan um Kaassali (Kassalimik oqaluttuaq). Ólína Þorvarðardóttir varaformaður ráðsins og dr. Ármann Jakobsson dómnefndarmaður afhentu Lars-Pele verðlaunin sem nema um 1.2 milljón íslenskra króna við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu. Athöfnin fór fram við opnun Vestnorrænna daga.

Þetta er í sjötta skipti sem verðlaunin eru veitt en þeim er úthlutað annað hvert ár.  Dómnefnd barnabókaverðlaunanna skipa Oddfríður Marni Rasmussen frá Færeyjum, Vera Lise Rosing Olsen frá Grænlandi og Dagný Kristjánsdóttir frá Íslandi.

Dómnefnd vestnorræna ráðsins segir meðal annars i greinargerð sinni: „Kaassalimik – oqaluttuaq (Sagan um Kaassali) er söguleg skáldsaga frá síðari hluta 18. aldar. Hún lýsir fyrstu átökunum sem verða milli heiðni og kristni á Grænlandi, áhrifunum af danskri verslun á veiðimannasamfélagið og fyrstu skrefum þjóðfélagsins í átt til nútímalegra hátta. Hún lýsir á einstæðan hátt miskunnarlausri lífsbaráttu þjóðarinnar í átökum við erfiða og háskalega náttúru án þess að reyna neitt að fegra. Hún fjallar einnig um ungar ástir, nornir og lífshættulega túpilakka“.

Kaassali eða Qaamasoq (ljósa barnið) er barn ungrar móður sem var rænt af hvalveiðimönnum og snýr aftur sköðuð á sál og barnshafandi. Móðirin hafði verið hálftrúlofuð syni töframannsins á nágrannabyggð en hún getur ekki snúið aftur til þess sambands vegna þess að hún hefur tengst bjargvætti sínum Aarluk frá Suður-Grænlandi sterkum böndum. Vegna þessa verður fjandskapur milli fjölskyldnanna tveggja sem áður áttu að tengjast. Unga fólkinu tekst þó að byggja upp á ný gagnkvæma virðingu og samstöðu milli ættanna. Þrátt fyrir fötlun af völdum slyss verður Kaassali með aldrinum mikill veiðimaður og mikilsvirtur.

Frásögnin er mjög góð, sagan er spennandi og áhrifamikil og ungir norrænir lesendur fá að kynnast grænlenskum menningararfi sem hér er lýst og sagan getur örvað þá til skáldlegra frásagna og endurfrásagna“.

Höfundurinn Lars-Pele Berthelsen fæddist í Qeqertarsuaq í Grænlandi 20. september 1949. Hann varð prentari, kennari og prestur. Hann á þrjú börn með konu sinni Magdalene og þrjú barnabörn. Sem kennari og síðar prestur hefur hann búið í Nuuk, Sarfannguit, Qasigiannguit og Qeqertarsuaq. Hann hefur verið skíðakennari í frístundum og er þekktur sem söngvari, lagahöfundur og skáld.

Auk Sögunnar um Kaassali voru unglingabækurnar Skriva í sandin (Skrifað í sandinn) eftir Marjuna Syderbø Kjelnæ og Með heiminn í vasanum eftir Margréti Örnólfsdóttur tilnefndar til verðlaunanna.

Áður hafa fengið verðlaunin barnabækurnar Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason (2002), Engill í vesturbænum eftir Kristínu Steinsdóttur og Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur (2004), færeyska bókin Ein hundur, ein ketta og ein mús eftir Bárður Oskarsson (2006), Draugaslóð eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur (2008) og Garðurinn eftir Gerði Kristnýju (2010).