Kristínu Helgu Gunnarsdóttur voru veitt Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins 2008 við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu hinn 9. september.  Á eftir fara erindi sem flutt voru við athöfnina.

 

Karl V. Matthíasson alþingismaður og varaformaður ráðsins bauð gesti velkomna.  Hann sagði:

 

„Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins voru fyrst veitt árið 2002. Þetta er í fjórða skipti sem verðlaunin eru veitt en tvisvar hafa þau verið veitt íslenskum höfundum.

 

Markmiðið með stofnun verðlaunanna var að hvetja rithöfunda til að nota hæfileika sína til að skrifa bækur fyrir börn og unglinga.  Markmiðið er líka að hvetja þá sem ganga með hugmynd að barnabók til þess að koma henni á blað.

Þar að auki vill Vestnorræna ráðið með verðlaununum leggja á það áherslu að Vestur-Norðurlönd eiga sér víðtæka sameiginlega sögu og samstarf.  Og það er mikilvægt að börn og unglingar kynnist sögum og menningu hvers annars sem allra best.  Að þessu stuðla verðlaunin.

 

Mig langar til að biðja Silju Aðalsteinsdóttur, bókmenntafræðing og meðlim í vestnorrænu dómnefndinni, um að skýra okkur frá valinu í ár.“

 

Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur og meðlimur í vestnorrænu dómnefndinni flutti eftirfarandi tölu:

Þegar dómnefndir landanna þriggja, Færeyja, Grænlands og Íslands, velja bækur til tilnefningar hafa þær úr tveggja ára framleiðslu að velja, því verðlaunin eru veitt annað hvert ár. Það var því dávænn bunki sem íslenska dómnefndin lagði af stað með í fyrrahaust. En vinnan var ekki erfið. Við Anna Heiða Pálsdóttir og Ármann Jakobsson urðum mjög fljótlega sammála um yfirburða verðleika Draugaslóðar Kristínar Helgu Gunnarsdóttur, og það reyndist beinlínis skemmtilegt að semja um hana kynningartexta með rökum fyrir valinu.

 

Ekki var síður gaman að fylgja bókinni eftir á þriggja landa dómnefndarfund í Þórshöfn í Færeyjum í júlí. Við tókum bækurnar fyrir í stafrófsröð, og þó að heiti þeirrar íslensku byrji á D var hún síðust í röðinni. Abct og Appólónía voru báðar á undan. Við hældum hverri fyrir sig, öll þrjú, og ég varð æ smeykari um að baráttan yrði erfið. En þegar kom að lokabókinni og ég var búin að kynna hana og höfund hennar með fáum orðum tók færeyski fulltrúinn til máls og hélt bara ekki vatni. Viðurkenndi fúslega og opinskátt að hann væri hugfanginn af sögunni, hún sameinaði allt sem best væri í norrænum barnabókmenntum: spennandi sögu, litríka samtímalýsingu og djúpa virðingu fyrir sögulegri fortíð og menningararfinum. Hann sagði svo margt fallegt um íslenskt þjóðareðli út frá þessari sögu að ég fór hjá mér! Sama var um grænlenska fulltrúann, henni fannst íslenska bókin bera af.

 

Það verður frábært að nota þennan stökkpall til að flytja söguna út í heim, því verðlaununum fylgir þýðingarstyrkur á eitt af stóru norrænu málunum auk þess sem sagan hefur verið þýdd á færeysku og grænlensku og kemur vonandi út þar í einhverju formi. Börn sem lesa þessa sögu fá að kynnast íslenska hálendinu í samtíð og fortíð, fegurð þess og háska, og fátt getur verið hollara. Það hlægir mig ef útlendir unglingar eiga eftir að tala sín á milli um Reynistaðabræður eins og hverjar aðrar sögulegar hetjur.

 

Ég óska Kristínu Helgu innilega til hamingju með þennan heiður sem hún er svo vel að komin.”

Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur og verðlaunahafi flutti eftirfarandi ávarp við verðlaunaafhendinguna:

 

Tilgangur minn með Draugaslóð var meðal annars að flytja hálendið inn á heimilin og rifja upp sannar sögur og lognar af Kili.

Það er fortíðin sem  kennir nútíðinni að stíga inn í framtíðina og því er mikilvægt að við höldum áfram að tína upp gamlar sögur- halda þeim á lofti- færa í nýjan búning og flytja á milli kynslóða.

 

Það vill gleymast í amstri neyslusamfélagsins að viðhalda þessum brúarmannvirkjum ævintýra og gamalla þjóðsagna. Þó er það svo mikilvægt fyrir sjálfsmynd þjóðar. Það er mikilvægt að börnin viti af  Reynisstaðabræðrum, Eyvindi og Höllu, Bergþóri í Bláfelli- útilegumönnum, draugum og tröllum- þekki fortíð sinnar þjóðar.

Einn af mínum uppáhaldskörlum úr fortíðinni er Fjalla-Eyvindur og því reyndi ég að tæpa á hans sögu í Draugaslóð og hafa hann dálitið yfir og allt um kring. Ég skrifaði kaflabrot úr bókinni á sólskinsmorgni í ágúst í fyrra flatmagandi í Eyvindartóft þar sem þau Halla bjuggu sér fjallakot á grænum hól við Hveravelli. 

Þessi litla hringhleðsla sem var heimili þeirra hjóna minnir mann á svo margt: hún minnir á ástina, frelsið, fegurðina, vonina og um fram allt smæð manneskjunnar í óbyggðum þessa lands.

Það sló mig þegar ég var þarna við skriftir að leifar þessa fjallakots eru nær ekkert merktar. Sparkað hefur verið úr tóftinni í óvitaskap og grjót úr hleðslu sjálfs Fjalla-Eyvindar nýtt til stígagerðar í gegnum tíðina.

Ég nefni það hér í þessu góða húsi til þess að minna á að við gætum menningarverðmætanna- skilgreinum merka staði, sýnum þeim virðingu og skráum sögu þeirra og segjum svo aðrir megi áfram njóta og þekkja.

Og þannig er vestnorræn samvinna svo mikilvæg til framtíðar. Þessar þrjár agnarsmáu þjóðir, sem rúmast allar í einu hverfi í skandinavískri borg. Þær þurfa að standa vörð um viðkvæman menningararf sinn til að skilgreina sig sem menningarsamfélag. Þar skiptir máli að varðveita gömlu hleðslurnar.

Hver þjóð um sig varðveitir örtungumál. Ábyrgð á viðhaldi þessara tungumála er mikil og í því ferli öllu saman vegur barnabókin þungt. Hún þroskar málvitund barna okkar. Hún opnar þeim áður óþekkta heima og kennir þeim að tjá tilfinningar sínar og koma frá sér meitlaðri hugsun. Lestur barnsins er einnig undirstaða fyrir allar  námsgreinar og opnar glugga tækifæranna.

Í mínum huga eru barna og fjölskyldubókmenntir grunnbókmenntagreinin sem allar aðrar bókmenntir hljóta að byggja á. Þar er verið að þroska lesendur framtíðar og því ber okkur að taka slíkar bókmenntir alvarlega

Þrátt fyrir einfalt yfirbragð við fyrstu sýn.

Kannanir sýna að enn dregur úr lestrarhæfni íslenskra barna. Og við hrópum á bætt grunnskólakerfi.  Auðvitað má laga þar til, en við verðum líka að líta okkur nær, skoða hugarfarið, samfélagslegar tilhneigingar og tíðaranda. Við verðum að kanna hvort þjóðarsálin sveipar sig skikkju naumhyggjunnar þegar kemur að bóklestri barna. Við verðum að spyrja okkur hvort heimilin okkar setji bókaskápa í öndvegi eða bókahillur – hvort við sjálf lesum okkur til ánægju og með börnum okkar. Við verðum að minna okkur á að bækur á heimili eru jafn sjálfsagðar og rafmagn og rennandi vatn. Við verðum að muna að þær eru

fyrir alla og enn hefur ekkert- í annars tæknivæddri veröld  – komið í stað bókar þegar um er að ræða þroskaferli barns.

Á liðnum vetri voru langar biðraðir foreldra með börn á handleggjum fyrir utan splunkunýjar leikfangabúðir. Ég á mér draum um að fram undan séu breyttir tímar- nefnilega biðraðir foreldra með börn á handleggjum fyrir utan bókaverslanir og bókasöfn- Ég vil aftur þakka heiðurinn sem mér er sýndur hér í dag- fjölskyldu minni þakka ég þolinmæðina og svo ekki síst ritstjóra mínum Sigþrúði Gunnarsdóttur fyrir hennar galdur- án hennar væru mínar bækur óttalegur draugagangur…


Karl V. Matthíasson varaformaður Vestnorræna ráðsins veitt að lokum verðlaunin og sagði:


Kæra Kristín Helga.

Mér er það sönn ánægja ásamt formanni íslensku dómnefndarinnar, Silju Aðalsteinsdóttur, að afhenda þér vestnorrænu barna- og unglingabókaverðlaunin.  Þessum alþjóðlegu verðlaunum fylgir mikill heiður enda þarf vinningsbókin að hljóta náð fyrir augum dómnefndarmanna frá þremur ólíkum löndum.  Þess má geta, að til þess að dómnefndarmenn geti tekið afstöðu til tilnefndra bóka, þá eru þær þýddar á hin vestnorrænu tungumálin tvö ásamt dönsku.  Draugaslóð er því búið að þýða á bæði færeysku, grænlensku og dönsku.

Sjálf verðlaunin eru með því allra mesta sem gerist en þau hljóða upp á rétt um milljón krónur.

Kristín Helga er einkar vel að verðlaununum kominn enda eru barnabækur hennar komnar yfir tuginn og eru þær hver annarri betri.  Draugaslóð er hrein snilld.

Gjörðu svo vel!