Íslenska dómnefndin um Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins tilnefnir til verðlaunanna árið 2006 skáldsöguna Frosnu tærnar eftir Sigrúnu Eldjárn (Mál og menning 2004).

 

,,Frosnu tærnar er miðbókin í þríleik Sigrúnar um systkinin Stínu og Jonna. Bækurnar eru í nýstárlegu broti, litlar og handhægar fyrir smáar hendur en bústnar og lofa mörgum lestrarstundum. Sigrún lýsir söguna sjálf með myndum í mjúkum litum sem brjóta textann skemmtilega upp og gera bækurnar bæði aðlaðandi og auðlæsilegar fyrir unga lesendur. Myndirnar ríma vel við efnið og hjálpa til við sköpun persóna.

Þetta er viðburðaríkt og heillandi ævintýri með alvarlegum undirtóni, þar sem nútíminn með tæki sín og tól hittir álfa og dverga og talandi hrafna. Systkinin Stína og Jonni og Skafti vinur þeirra kljást hér við brjálaða vísindakonu sem ætlar að skapa nýjar verur til að nota í hernaði. Það eina sem getur unnið á óvættinni er blanda af blóði manna, dverga og álfa, og til að komast að henni þurfa bjargvættirnar að fara um göng í iðrum jarðar og standast fimbulkulda inni í miðjum jökli. Með sér hafa börnin nokkra töfragripi, til dæmis einkar saðsamar kleinur, neyðarkaramellur, ógeðslegt slím og þrenns konar vökva í litlum flöskum. Gripir þessir koma að góðu gagni þegar farsíminn verður rafmagnslaus. Börnin sýna hugrekki, staðfestu og góða kímnigáfu og sigrast á öllum þrautum. Börnin þurfa líka að taka siðferðilega afstöðu til álitamála, og boðskapurinn er skýr: Gullið er einskis virði á móti vináttunni.

Sigrún Eldjárn er einn afkastamesti og vinsælasti barnabókahöfundur landsins, auk þess sem hún er einstakur myndlistarmaður. Hún hefur sérstakt lag á að ná til barna með hröðum, viðburðaríkum sögum. Stíll hennar er knappur og fyndinn, hún kemur sér beint að efninu og kippir lesendum vafningalaust inn í atburðarásina.”

Grænlenska dómnefnd verðlaunanna hefur tilnefnt barnabókina Jólasveinninn og litlu sveinarnir eftir Grethe Guldager sem Nuka Godfredsen hefur myndskreytt. Dómnefnd Færeyja hefur tilnefnd bókina Hundur, köttur og mús eftir Bárð Oskarsson til verðlaunanna. Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins verða veitt einni af þessum bókum í ágúst 2006 og hlýtur verðlaunahafinn rúmlega 600.000 þúsund íslenskar krónur.

 

Árið 2002 hlaut bókin Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason verðlaunin og árið 2004 bókin Engill í vesturbænum eftir Kristínu Steinsdóttur og Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur.

Íslensku dómnefndina skipa bókmenntafræðingarnir Silja Aðalsteinsdóttir formaður, Ármann Jakobsson og Anna Heiða Pálsdóttir.

Frekari upplýsingar: Silja Aðalsteinsdóttir, s. 5813542, silja.adal@simnet.is . 

Vestnorræna ráðið, s. 5630731, vestnordisk@althingi.is

Um höfundinn: http://edda.is/net/products.aspx?mid=82&LastId=87624

Rökstuðningur íslensku dómnefndarinnar í heild sinni: https://www.vestnordisk.is/id/1000194

Reglur verðlaunanna: https://www.vestnordisk.is/id/1000103 .

Verðlaunin eru veitt annað hvert ár og er þetta í þriðja skipti sem bækur eru tilnefndar til þeirra. Valið fer þannig fram að í desember, árið áður en verðlaunin eru veitt, útnefna dómnefndir landanna eina bók hver frá sínu landi til verðlaunanna. Vestnorræna dómnefndin velur síðan eina af þessum bókum sem svo hlýtur verðlaunin
í ágúst árið eftir.

 Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars: