Íslenska dómnefndin um Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins tilnefnir til verðlaunanna árið 2008 skáldsöguna Draugaslóð eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur (Mál og menning 2007).

 

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars:

Draugaslóð er óvenju auðug saga að líflegum og sterkum persónum sem lesendur trúa á og verðugum viðfangsefnum. Stíllinn er leikandi og fagmannlegur, tilgerðarlaus en þó oft fallegur. Sagan er flókin í uppbyggingu en höfundur heldur vel um alla þræði. Síðast en ekki síst er sagan einstök fyrir það hversu fimlega höfundur fléttar íslenskan þjóðsagnaarf inn í söguna.

 

Sagan segir frá Eyvindi Þórusyni, þrettán ára sem hefur alist upp hjá ömmu sinni, sérkennilegri konu sem er jafnvíg á bifvélaviðgerðir, brúðarkjólasaum og listmálun. Í upphafi sögu flytur móðir hans heim til Íslands, og til að kynnast drengnum sínum ræður hún sig sem skálavörð á Kili, vitandi hve gífurlegan áhuga Eyvindur hefur á útilegumönnum og öðrum þjóðsagnapersónum. Hann fer með henni og sumarið verður í meira lagi viðburðaríkt. Mikið er lagt á Eyvind en hann stenst hverja raun, líka þá að vera heilt sumar með mömmu sem hann þekkir ekki.

 

Kristín Helga hefur helgað sig skrifum fyrir börn í áratug og nær einstaklega vel til barna. Ár eftir ár hafa bækur eftir hana fengið Bókaverðlaun barnanna en atkvæðisrétt þar hafa börn á aldrinum 6-12 ára.“

 

Grænlenska dómnefnd verðlaunanna hefur tilnefnt barnabókina Abct eftir Julie Edel Hardenberg. Dómnefnd Færeyja hefur tilnefnt bókina Apollonia sem Edward Fuglø hefur bæði ritað og myndskreytt.  Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins verða veitt einni þessara bóka í ágúst 2008 og hlýtur verðlaunahafinn rúmlega 600.000 íslenskar krónur (60.000 danskar krónur).

 

Verðlaunin eru veitt annað hvert ár og er þetta í fjórða skipti sem bækur eru tilnefndar til þeirra. Valið fer þannig fram að í desember, árið áður en verðlaunin eru veitt, tilnefna dómnefndir landanna eina bók hver frá sínu landi. Vestnorræna dómnefndin velur síðan eina af þessum bókum sem svo hlýtur verðlaunin í ágúst árið eftir.

 

Árið 2002 hlaut bókin Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason verðlaunin, árið 2004 bókin Engill í vesturbænum eftir Kristínu Steinsdóttur og Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur og árið 2006 hlaut færeyska bókin Hundurinn, kötturinn og músin eftir Bárð Oskarsson verðlaunin, en hún er nú komin út í íslenskri þýðingu.

 

Íslensku dómnefndina skipa bókmenntafræðingarnir Silja Aðalsteinsdóttir formaður, Ármann Jakobsson og Anna Heiða Pálsdóttir.

 

Frekari upplýsingar: Silja Aðalsteinsdóttir, s. 5813542, silja.adal@simnet.is .

Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur, s. 8969771, dinna@mmedia.is

Þórður Þórarinsson framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, s. 5630731, tt@althingi.is

 

Lesið um höfundinn hér.

Hér má lesa rökstuðning íslensku dómnefndarinnar í heild sinni.

Lesið um reglur verðlaunanna hér.