Tilnefnt hefur verið í fimmta skipti til Barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins en annað hvert ár eru þau veitt barna- eða unglingabók sem þykir bera af öðrum sambærilegum bókum sem gefnar hafa verið út í Færeyjum, Grænlandi eða Íslandi.

Íslenska dómnefndin um Barna- og unglingabókaverðlaunin tilnefnir til verðlaunanna árið 2010 skáldsöguna Garðinn eftir Gerði Kristnýju Guðjónsdóttur (Forlagið – Mál og menning 2008).

 

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars:

Garðurinn er skrifuð af fágætri hind. Flétta sögunnar er áhugaverð og í mörgum hliðarsögum eru nútíð og fortíð tengdar saman og spurt um mörkin milli hins þekkta og óþekkta.

 

Sagan er gædd ríku innsæi í sálarlíf unglinga auk þess sem Gerður Kristný blandar saman ólíkum bókmenntagreinum og nýtir sér eiginleika draugasögunnar, fantasíunnar, þroskasögunnar og sögulegu skáldsögunnar til að miðla fróðleik um hlutskipti fátæks fólks í Reykjavík á öðrum áratug tuttugustu aldarinnar. Í þessari bók tekst höfundinum fagurlega að sameina fræðslu, skemmtigildi og listrænt gildi.

 

Garðurinn segir frá unglingsstúlkunni Eyju sem flytur með foreldrum sínum í hús á móti gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu. Faðir hennar er sagnfræðingur sem er að rannsaka sögu spænsku veikinnar 1918. Dularfullir atburðir eiga sér stað og virðast tengdir gömlum stól sem fjölskyldan eignast. Þegar foreldrarnir veikjast lífshættulega af ókunnum sjúkdómi verður Eyja að taka upp baráttu við hin illu öfl til að bjarga þeim.“

 

Grænlenska dómnefnd verðlaunanna hefur tilnefnt barnabókina Sila eftir Lana Hansen með teikningum eftir Georg Olsen. Dómnefnd Færeyja hefur tilnefnt bókina Várferðin til Brúnna eftir Rakel Helmsdal.  Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins verða veitt einni þessara bóka í ágúst 2010 og hlýtur verðlaunahafinn 60.000 danskar krónur eða um 1,4 milljónir íslenskra króna.

 

Verðlaunin eru veitt annað hvert. Valið fer þannig fram að í desember, árið áður en verðlaunin eru veitt, tilnefna dómnefndir landanna eina bók hver frá sínu landi. Vestnorræna dómnefndin velur síðan eina af þessum bókum sem svo hlýtur verðlaunin í ágúst árið eftir.

 

Árið 2002 hlaut bókin Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason verðlaunin, árið 2004 bókin Engill í vesturbænum eftir Kristínu Steinsdóttur og Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur, árið 2006 hlaut færeyska bókin Hundurinn, kötturinn og músin eftir Bárð Oskarsson verðlaunin og í fyrra fékk Kristín Helga Gunnarsdóttir verðlaunin fyrir bókina Draugaslóð.

 

Íslensku dómnefndina skipa prófessor Dagný Kristjánsdóttir formaður, Ármann Jakobsson dósent og Anna Heiða Pálsdóttir bókmenntafræðingur.

 

Frekari upplýsingar: Dagný Kristjánsdóttir, dagny@hi.is .

Gerður Kristný rithöfundur, s. 8959050, gkristny@simnet.is

Þórður Þórarinsson framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, s. 5630731, tt@althingi.is

 

Um höfundinn: http://bokmenntir.is/rithofundur.asp?cat_id=58&author_id=30&lang=1

Reglur verðlaunanna: https://www.vestnordisk.is/id/1000103 .