Staða Vestur-Norðurlanda í ljósi breytinga á Norðurskautinu

Dagana 28. og 29. mars 2012 safnast 40 vestnorrænir, norskir og danskir stjórnmála-, háskóla- og fræðimenn saman í Ilulissat á Grænlandi á árlegri þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins til að ræða „stöðu Vestur-Norðurlanda í alþjóðasamfélaginu, sértaklega hvað varðar Norðurskautssvæðið og þær breytingar sem þar hafa orðið“.

Breytingar á Norðurskautssvæðinu og áhrif þeirra á Vestur-Norðurlönd

Á ráðstefnunni verða m.a. kortlagðir sameiginlegir hagsmunir Færeyja, Grænlands og Íslands í ljósi þeirra breytinga sem afleiðingar umhverfis- og loftlagsbreytinga síðustu ára og ártuga hafa haft í för með sér fyrir svæðið og raunar alþjóðakerfið allt.

Ástæða fyrir vali ráðsins á þessu þema er, að verulegar breytingar hafa átt sér stað á umhverfi og veðurfari á Vestur-Norðurlöndum undanfarna áratugi. Þessar breytingar hafa haft ýmsar afleiðingar eins og auknar siglingar á svæðinu sem og aukin efnahagsleg umsvif, ekki síst í tengslum við nýtingu á þeim auðlindum sem þar er að finna. Meðal annars af þessum ástæðum sýna nú sífellt fleiri ríki svæðinu aukinn áhuga.

Staða Vestur-Norðurlanda í alþjóðakerfinu er því í mikilli þróun. Mikilvægt er að löndin þrjú tryggi sér miðlægt hlutverk í pólitískum ákvörðunum varðandi málefni norðurslóða og Norður-Atlantshafs og verði þannig betur í stakk búin til að vernda eigin hagsmuni.  Það er von ráðsins að ráðstefnan stuðli að því.

Þá verður jafnramt kannað hvort sameiginleg stefna Vestur-Norðurlanda varðandi ákveðna málaflokka á þessu sviði gæti styrkt stöðu landanna þriggja og þannig áhrif þeirra á þróun svæðisins.

Fyrirlesarar

Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni verða  Alyson Bailes aðjúnkt við stjórmálafræðideild HÍ og gestaprófessor við Evrópuháskólann í Brugge, Ágúst Þór Árnason deildarformaður lagadeildar Háskólans á Akureyri, Birger Poppel rannsóknarstjóri við verkefnið Lífshættir og lífsgæði fólks á norðurslóðum SLiCA við Háskóla Grænlands, Gestur Hovgaard, lektor i samfélagsfræðum við Háskóla Færeyja, Lene Kielsen Holm rannsóknarstjóri hjá Loftlagsmiðstöð Náttúrufræðistofnunar Grænlands, Margrét Cela sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum og doktorsnemi við Háskólann í Lapplandi, dr. Níels Einarsson, forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, dr. Rasmus Ole Rasmussen lektor við Háskólann í Hróarskeldu og Sven-Roald Nystø MPhil i heimskautafræðum, ráðgjafi við Árran lulesamísku miðstöðina í Noregi.

Frekari upplýsingar

Vestnorræna ráðið er formlegur samstarfsvettvangur þinga Færeyja, Grænlands og Íslands.

Í forsætisnefnd ráðsins sitja formaðurinn Henrik Old lögþingsmaður ásamt varaformönnunum Josef Motzfeldt forseta Grænlandsþings og Ólínu Þorvarðardóttur alþingismanni.

Í Íslandsdeild ráðsins sitja auk Ólínu Þorvarðardóttur þingmennirnir Árni Johnsen, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Þór Saari.

Frekari upplýsingar veitir framkvæmdastjóri ráðsins Þórður Þórarinsson, s. 563 0731.