Samstarf um björgunarmál rætt hjá Vestnorræna ráðinu

Um 50 vestnorrænir þingmenn, ráðherrar, yfirmenn björgunarmála ásamt þingmönnum annarra Norðurlanda, fagfólk og sérfræðingar munu taka þátt í þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem fer fram í Þórshöfn í Færeyjum dagana 5.-8. júní. Ráðstefnan ber yfirskriftina: Björgunarviðbúnaður á Norður-Atlantshafi og möguleikarnir á að styrkja alþjóðlegt samstarf um björgunarmál.

 

Það er mikilvægt fyrir Vestur-Norðurlönd, sem öll eru umlukin gífurlegu hafsvæði, að til staðar sé nógu öflugur björgunarviðbúnaður á Norður-Atlantshafi. Þess vegna hvatti ársfundur Vestnorræna ráðsins ríkisstjórnir landa í kringum Norður-Atlantshaf til að efla samstarf sitt um björgunarmál.

 

Karl V. Matthíasson alþingismaður og formaður Vestnorræna ráðsins segir að tilgangur ráðstefnunnar sé að skapa yfirsýn yfir samninga og samkomulag varðandi björgunarmál sem fyrir hendi eru á milli Vestur-Norðurlanda og annarra aðila og yfir þann björgunarbúnað sem er að finna á svæðinu. Hann segir að ráðstefnan muni jafnframt gefa innsýn í þau brýnu verkefni sem svæðið stendur frammi fyrir í kjölfar loftslagshlýnunar og þess að Bandaríkjamenn drógu björgunarsveit sína frá Íslandi.

 

Ljóst er að bæði atvinnustarfsemi og skipaumferð á eftir að aukast til muna í norðurhöfum samfara aukinni bráðnun hafíss, sem opnar möguleikann á nýjum siglingaleiðum, auk þess sem ný tækni auðveldar auðlindanýtingu á norðurslóðum. Á sama tíma hefur dregið úr björgunarviðbúnaði á svæðinu eftir að Bandaríkin kölluðu þyrlubjörgunarsveit sína heim frá Íslandi.

 

Því hefur ráðið skorað á ríkisstjórnir Vestur-Norðurlanda að auka samstarf og samráð um öryggis- og björgunarmál á Norður-Atlantshafi og lagt til að komið verði á sameiginlegum björgunaræfingum til að samræma viðbúnað og samhæfa viðbrögð við stórslysum á Norður-Atlantshafi.

 

Í ljósi þessa munu menn ræða möguleikana á því og kosti þess að auka samstarf, sérstaklega á milli yfirvalda björgunarmála á svæðinu, og efla samhæfingu á þeim sviðum þar sem löndin hafa sameiginlega hagsmuni. Farið verður yfir tvíhliða samninga sem Vestur-Norðurlönd hafa hvert fyrir sig gert við ýmis lönd auk þess sem ræddar verða hugmyndir um hvort mögulegt sé og æskilegt að gerðir verði á svæðinu fjölþjóðlegir samningar um viðbrögð við stórslysum eða umhverfisslysum. Jafnframt verður rætt hvort hægt sé með aukinni samvinnu landanna að ná fram betri nýtingu á björgunarbúnaði og mannafla landanna og um leið að bæta viðbragðsgetu til að bregðast við stórslysi á svæðinu.

 

Sameiginlegar æfingar í fyrsta skipti

Í tengslum við þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins skipuleggja Landsbjörg og systrasamtök þeirra í Færeyjum, Landhelgisgæslur Íslands og Færeyja auk færeyskrar stjórnstöðvar danska sjóhersins sameiginlegar björgunaræfingar. Er það í fyrsta skipti sem þessir aðilar æfa allir saman. Bæði verður um sjó- og landbjörgunaræfingar að ræða.

 

Frekari upplýsingar

Meðfylgjandi er dagskrá ráðstefnunnar.

 

Vestnorræna ráðið er vettvangur þingmannasamstarfs grænlenska Landsþingsins, Alþingis Íslendinga og Lögþings Færeyinga. Karl V. Matthíasson alþingismaður er formaður ráðsins en varaformenn eru Ruth Heilmann, forseti Grænlandsþings og Kári P. Højgaard þingmaður á Lögþingi Færeyja.

 

Nánari upplýsingar um þemaráðstefnuna:

Þórður Þórarinsson framkvæmdastjóri ráðsins, sími 563 0731, vestnordisk@althingi.is

 

Nánari upplýsingar um sameiginlegu björgunaræfingarnar:

Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri slysavarnarfélagsins Landsbjargar, sími 896 4436, kristinn@landsbjorg.is