Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins hefur ráðið Ingu Dóru G. Markussen frá Nuuk á Grænlandi sem framkvæmdastjóra ráðsins. Hún tekur við stöðunni af Þórði Þórarinssyni, sem hefur horfið til annarra starfa eftir níu ára þjónustu.

Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur þjóðþinga vestnorrænu þjóðanna, Lögþings Færeyja, Alþingis Íslendinga og Inatsisartut á Grænlandi, en ráðið var stofnað árið 1985.

Mikill áhugi var á framkvæmdastjórastöðunni, sem sjá má af því að 41 hafði sent inn umsókn þegar frestur rann út hinn 24. febrúar 2014.

„Þessi fjöldi umsókna sýnir að ríkur áhugi er á starfi ráðsins og vestnorrænu samstarfi. Þess vegna gaf forsætisnefnd ráðsins sér rúman tíma til þess að velja rétta manneskju í starfið,“ segir Unnur Bráð Konráðsdóttir, alþingismaður og formaður Vestnorræna ráðsins.

„Það var Inga Dóra G. Markussen frá Nuuk, sem varð fyrir valinu, en hún hefur mikla reynslu af stjórnunarstörfum og fjölmiðlun. Hún hefur afbragðsgóða innsýn í samfélög vestnorrænu þjóðanna þriggja og samstarf þeirra og talar þar fyrir utan dönsku, ensku, grænlensku og íslensku reiprennandi. Við hlökkum til þess að vinna með Ingu Dóru, sem tekur við starfinu innan skamms,“ segir Unnur Brá.

Skrifstofa Vestnorræna ráðsins er í Reykjavík.