Betra húsnæði fyrir eldri borgara

Við hönnun húsnæðis eldri borgara á Vestur-Norðurlöndum ætti að tryggja að tekið sé tillit til þörf eldri borgara fyrir þjónustu og meðhöndlun.  Það var meðal þess sem kom fram á 14. þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins um framtíðarlausnir í húsnæðismálum eldri borgara í vestnorrænu löndunum sem haldinn er í Færeyjum.

Meðal niðurstaðna fundarins var að til framtíðar bæri að líta til búsetuforma sem næst kæmust búsetu á eigin heimili frekar en stórar stofnanir. Þá kynntu arkitektar frá Íslandi og Grænlandi hugmyndir um byggingarform framtíðarinnar, sem uppfylla einmitt kröfur um einstaklingsmiðuð búsetuform.

Ólína Þorvarðardóttir formaður Vestnorræna ráðsins benti í ræðu sinni á að það væri á fundum ráðsins sem oft væru tekin fyrstu skrefin í átt að auknu samstarfi á nýjum sviðum.  ,,Þess vegna er sérstaklega mikilvægt að íbúðamál eldri borgara séu rætt á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins þar sem borin eru kennsl á þau svið þar sem löndin eiga sameiginlega hagsmuni sem verður vonandi til þess að samstarf landanna verði aukið enn frekar“, sagði Ólína á fundinum.  Hún benti jafnframt á að með því að læra af reynslu og aðferðafræði hvers annars gætu löndin aukið líkur á að hagræða í rekstri sínum þannig að meira fengist fyrir peningana.

Á fundinum var farið yfir hvernig húsnæðismálum aldraðra er fyrirkomið á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi auk þess sem ýmsir möguleikar varðandi framtíðarskipan húsnæðismála eldri borgara voru ræddir.

Fulltrúar félaga eldri borgara í Færeyjum og Grænlandi undirstrikuðu mikilvægi þess að félög eldri borgara ættu aðkomu að ákvarðanatöku um framtíðaruppbyggingu húsnæðis fyrir eldri borgara.

 

Yfir 20 vestnorrænir þingmenn tóku þátt í ráðstefnunni þar sem sérfræðingar, hagsmunaaðilar og háskólamenn fluttu erindi á ráðstefnunni sem haldinn var í Norræna húsinu í Færeyjum.

Niðurstöður þemaráðstefnunnar verða rædd á ársfundi Vestnorræna ráðsins, sem haldinn verður á Bifröst nk. ágúst, og næstu skref ákveðin.

Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur þingmanna frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi